Fæðingartíðni á Íslandi

Tímaraðagreining á daglegum fæðingum frá 1990 til og með 2022

Hvert var hlutfall keisaraskurða af heildarfjölda fæðinga? Var fæðingartíðni breytileg á tímabilinu, var hún breytileg eftir árstíðum, og eru merki um að dagsetningar valkeisaraskurða hafi haft áhrif á fæðingartíðni eftir vikudögum, dögum ársins eða hátíðardögum?

fæðingartíðni
valkeisaraskurðir
Höfundur
Stofnun
Síðast uppfært

October 26, 2023


Þegar keisaraskurðir eru fyrir fram ákveðnir (valkeisaraskurðir) fá foreldrar að velja fæðingardaginn í samráði við lækni. Ef hlutfall valkeisaraskurða af heildarfjölda fæðinga er nógu hátt, þá ættu áhrif slíkra ákvarðana (ef einhver) að birtast sem breytileg fæðingartíðni eftir vikudögum, dögum ársins eða fljótandi hátíðardögum (t.d. páskadagur). Sjáum við t.d. merki um það að foreldrar reyni að afstýra því að barn þeirra eigi afmæli 29. febrúar ef þeim stendur annar dagur til boða? Einnig hlýtur að teljast líklegt að valkeisaraskurðum sé stýrt frá þeim hátíðardögum sem eru samningsbundnir frídagar lækna. Hér leitumst við eftir svörum við þessum spurningum – og fleirum – með því að framkvæma tímaraðagreiningu á gögnum Hagstofunnar um daglegar fæðingar á Íslandi á árunum 1990-2022.


Um gögnin

Notuð eru tvö gagnasett. Fyrra gagnasettið sýnir daglegar fæðingar á Íslandi á árunum 1990-2022 (Hagstofa Íslands). Seinna gagnasettið sýnir árlegar fæðingar á Íslandi á árunum 1970-2020 eftir gerð, þ.e. leggangafæðing eða keisaraskurður (Fæðingaskrá, kvennadeild LSH).


Rýnt í gögnin

Valkeisaraskurðir eru greiningu okkar mikilvægir vegna þess að þeir stýra áhrifum vikudaga og daga ársins á fæðingartíðni. Tíðni leggangafæðinga á Íslandi (blár ferill) sveiflaðist til á árunum 1970-2020 en langtímahneigðin virðist halla niður á við. Aftur á móti margfaldaðist fjöldi keisaraskurða á tímabilinu (rauður ferill).

Ef fjöldi keisaraskurða er skoðaður sem hlutfall allra fæðinga má sjá hvernig hlutfallið óx frá 1970 til 2000 og virðist svo hafa náð jafnvægi rétt ofan við efri mörk 10%-15% viðmiðs Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Meðaltalið á heimsvísu fyrir tímabilið 2010-2018 var um 21% (Betran o.fl., 2021).

Gögnin sem verða notuð í tímaraðagreininguna hér að neðan voru fengin frá Hagstofu Íslands með beiðni um sérvinnslu gagna og sýna fjölda daglegra fæðinga á Íslandi á árunum 1990-2022.

Með því að reikna meðalfjölda fæðinga yfir allt tímabilið fyrir hvern dag ársins má sjá að fæðingartíðni var breytileg eftir árstíma.

Þegar meðalfjöldi fæðinga er reiknaður eftir vikudögum sjást skýr vikudagaáhrif. Fleiri börn fæddust á virkum dögum heldur en um helgar, flestar fæðingar voru á þriðjudögum og fæstar á sunnudögum. Hér sjáum við fyrstu ummerki þeirra áhrifa sem val á dagsetningum valkeisaraskurða hafði á fæðingartíðni.

Ef meðaltölin eru reiknuð fyrir þrjú aðskilin tímabil má sjá að í seinni tíð hefur valkeisaraskurðum verið stýrt í auknum mæli frá mánudögum og miðvikudögum yfir á þriðjudaga og fimmtudaga.


Tölfræðilíkan

Til þess að meta áhrif tiltekinna daga ársins á fæðingartíðni þurfum við að einangra langtíma-, árstíðar-, og vikudagaáhrifin. Við búum því til tölfræðilíkan sem metur væntigildi fjölda fæðinga yfir tímabilið sem summu þessara fjögurra þátta. Tölfræðilíkanið er byggt á líkani Gelman, Vehtari, Simpson o.fl. (2022) sem búið var til fyrir sambærileg gögn frá Bandaríkjunum. Myndin hér að neðan sýnir niðurstöður tölfræðilíkansins sem mátað er að íslensku fæðingargögnunum. Gögnin hafa verið sköluð þannig að lóðrétti ásinn sýnir hlutfallsleg frávik frá meðalfjölda fæðinga yfir allt tímabilið (~12).

Á myndinni efst til vinstri má sjá gögnin (bláir punktar) og væntigildi líkansins (rauður ferill). Væntigildið er summa fjögurra þátta: langtímahneigðar (f1), árstíðaráhrifa (f2), vikudagaáhrifa (f3) og áhrifa daga ársins sem og fljótandi hátíðardaga (f4). Fljótandi hátíðardagar eru þeir hátíðardagar sem lenda ekki á sama degi ársins ár hvert (t.d. páskadagur). Þannig táknar 10% að fæðingartíðnin var 10% yfir heildarmeðaltalinu, eða um 13 fæðingar. Hins vegar táknar -15% að fæðingartíðnin var 15% undir heildarmeðaltalinu, eða um 10 fæðingar.

Myndin efst hægra megin sýnir hvernig langtímahneigðin (rauður ferill) breytist yfir tímabilið. Ferillinn fer úr hámarkinu í upphafi tímabilsins niður í lágmarkið stuttu eftir aldamótin. Hann rís svo aftur og nær staðbundnu hámarki stuttu eftir bankahrun, um 2010. Því næst lækkar ferillinn aftur þar til stuttu fyrir heimsfaraldurinn 2020 þegar hann tekur að rísa en fellur svo aftur 2022.

Vinstri myndin í línu tvö sýnir árstíðaráhrifin (rauður ferill). Þar sést að flestar fæðingar voru að staðaldri í lok september, níu mánuðum eftir jólahátíðina. Árstíðarhneigðin fellur svo frá hámarkinu niður í lágmarkið um jólahátíðina og tekur svo aftur að rísa.

Vikudagaáhrifin eru sýnd á hægri myndinni í línu tvö. Áhrifin eru reiknuð fyrir sjö aðskilin tímabil og sjá má að valkeisaraskurðir ollu því að fæðingartíðni var mismunandi eftir vikudögum. Einnig má sjá hvernig vikudagaáhrifin breyttust yfir tímabilið. Til að mynda virðast valkeisaraskurðir í sífellt ríkara mæli hafa verið framkvæmdir á þriðju- og fimmtudögum frá og með árunum 2010-2014.

Að lokum sýnir neðsta myndin áhrif daga ársins og fljótandi hátíðardaga á fæðingartíðni. Engin áhrif voru metin fyrir 29. dag febrúarmánaðar en flestir hátíðardagar höfðu neikvæð áhrif á fæðingartíðni. Flestum valkeisaraskurðum virðist hafa verið stýrt frá hátíðardögunum yfir jólin.


Niðurlag

Fjöldi fæðinga á Íslandi hefur farið fækkandi frá árinu 1970 á sama tíma og fjöldi keisaraskurða hefur margfaldast. Hlutfall keisaraskurða af heildarfjölda fæðinga á Íslandi var um 16% á árunum 1990-2022. Gögnin sýna að fæðingar voru tíðari á virkum dögum heldur en um helgar og að valkeisaraskurðum hafi í seinni tíð verið stýrt í auknum mæli frá mánudögum og miðvikudögum yfir á þriðjudaga og fimmtudaga. Árstíðaráhrifin ná hámarki í lok september og falla svo niður í lágmarkið um jólahátíðina. Þá benda niðurstöður tölfræðilíkansins til þess að valkeisaraskurðum hafi verið stýrt frá mörgum af helstu hátíðardögum Íslendinga. Mest voru neikvæð áhrif hátíðardaganna yfir jólin. Líkanið metur engin áhrif 29. dag febrúarmánaðar.