Kosningaspá Metils
Hvernig tókst okkur til?
Nú í kjölfar kosninganna er ágætt að taka stöðuna og leggja mat á hversu nálægt kosningaspá Metils var úrslitunum og bera hana saman við fylgiskannanir sem birtust í aðdraganda kosninganna. Tilgangur kosningaspárinnar var jú eftir allt saman að leiðrétta að einhverju leyti meint frávik á milli fylgiskannana og kosninga. Hér er rétt að árétta að markmið spárinnar er auðvitað allt annað en markmið kannana – spáin reynir að spá fyrir um úrslit kosninganna en kannanir endurspegla stuðning við flokka ef kosið væri á deginum sem könnun er framkvæmd. Við teljum þetta þó eðlilegan og gagnlegan samanburð í aðdraganda kosninga.
Meginniðurstöðurnar eru eftirfarandi:
Í stóra samhenginu voru lokakannanir fyrirtækjanna fjögurra ekki svo fjarri úrslitunum og voru nær úrslitum kosninganna en í kosningunum 2021. Það er einkar gleðilegt enda endurspeglar það að heilt yfir eru íslensk kannanafyrirtæki með trausta aðferðafræði sem skilar áreiðanlegum niðurstöðum.
Af fjórum kannanafyrirtækjum og tveimur kosningaspám voru Metill og Gallup næst úrslitum kosninganna, en meðalfrávik beggja frá úrslitum kosninganna var 1,0 prósentustig. Kosningaspa.is kom þar næst á eftir með 1,2 prósentustiga meðalfrávik, Félagsvísindastofnun var með 1,4, Maskína með 1,5 og Prósent loks með 1,7.
Við vanmátum fylgi Samfylkingarinnar verulega og ofmátum fylgi Framsóknarflokks, Pírata og Vinstri grænna miðað við kannanafyrirtækin. Á móti kemur að við vorum mun nær fylgi Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins. Fylgi Viðreisnar var að jafnaði hærra í lokakönnunum en í kosningunum, en við vanmátum fylgi við flokkinn á móti. Niðurstöður fyrir aðra flokka voru sambærilegar.
Þegar lengra var í kosningar er munurinn á kosningaspá Metils og könnunum meiri. Strax í fyrstu spá Metils 7. nóvember birtist ágæt mynd af niðurstöðum kosninganna og var hún talsvert nær úrslitunum en kannanir sem birtust um svipað leyti. Spá okkar frá 8. nóvember reyndist svo nær úrslitum kosninganna en lokakönnun eins fyrirtækis (meðalfrávik Metils var 1,6 prósentustig) og spáin frá 16. nóvember var nær úrslitunum en lokakannanir tveggja annarra fyrirtækja (meðalfrávikið þá 1,3 prósentustig). Aftur gekk Gallup betur en öðrum aðilum, en síðustu tvær vikurnar fyrir kosningar voru frávik kannana þeirra frá úrslitunum svipuð og frávik kosningaspárinnar.
Nánari upplýsingar
Algeng leið til að leggja mat á forspárgildi kosningaspálíkana er að reikna meðalfrávik spáa frá fylgi allra helstu flokka í kosningum. Sem dæmi þá spáðum við Viðreisn 14,9% fylgi í lokaspá okkar, en flokkurinn fékk 15,8% upp úr kjörkössunum. Því var frávikið fyrir þann flokk 0,9 prósentustig (15,8-14,9=0,9). Með því að reikna frávikið með þessum hætti fyrir alla flokka og taka meðaltalið þá fáum við ágætis mynd af því hversu fjarri við og kannanafyrirtækin voru frá úrslitunum.
Hér er mikilvægt að hafa í huga að við getum aldrei búist við því að við eða könnunaraðilar spái nákvæmlega rétt fyrir um fylgi allra flokka enda byggja kannanir yfirleitt á svörum eitt til tvö þúsund svarenda sem eru notuð til að álykta um viðhorf allra kjósenda. Nánar er fjallað um þetta í bókinni Lognmolla í ólgusjó, sem kom út nýlega, en samkvæmt henni er viðbúið að meðalfrávik kannana í íslenska flokkalandslaginu sé um 0,6 prósentustig vegna úrtaksskekkju.
Á myndinni að ofan sjáum við meðalfrávik kosningaspár Metils borið saman við lokakannanir fjögurra fyrirtækja og kosningaspá kosningaspa.is. Meðalfrávikið er reiknað fyrir alla flokka sem náðu yfir 1% fylgi. Eins og sjá má voru Metill og Gallup jöfn með 1,0 prósentustiga frávik, en kosningaspa.is var skammt undan með 1,2 prósentustiga frávik. Aðrir aðilar voru fjær úrslitum kosninganna.
Myndin hér að ofan sýnir frávik allra aðilanna frá fylgi hvers og eins flokks. Eins og fjallað er um í texta hér að ofan þá voru kerfisbundin frávik hjá könnunaraðilum þegar kom að fylgi við Sjálfstæðisflokkinn, Flokk fólksins og Sósíalista. Á móti kemur að Metill var nokkuð fjarri fylgi Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna. Þessar niðurstöður munu kalla á frekar greiningar af okkar hálfu og vonandi leiða til betra kosningalíkans fram á veginn.
Að lokum sýnum við mynd hér að ofan með þróun meðalfráviks mánuðinn fyrir kosningar. Við áréttum aftur að það er mjög mikilvægt að hafa í huga að markmið Metils er allt annað en markmið kannanafyrirtækja þegar langt er í kosningar. Kosningaspá Metils er beinlínis að spá fyrir um úrslit kosninganna og því eðlilegt að dæma hana af forspárgildi, jafnvel þegar langt er í kosningar. Kannanir eru hins vegar einungis að mæla stuðning við flokka á hverjum tíma. Það er því ekkert óeðlilegt við það ef kannanir eru fjarri úrslitum kosninga þegar vika eða vikur eru til kosninga.
Samanburðurinn hér að ofan sýnir að strax í fyrstu spá Metils 7. nóvember birtist ágæt mynd af niðurstöðum kosninganna og var hún talsvert nær úrslitunum en kannanir sem birtust um svipað leyti. Þegar leið á nóvember lækkaði meðalfrávik Metils jafnt og þétt, en það sama má segja um kannanir Gallup. Kannanir tveggja kannanafyrirtækja færðust þó á sama tíma lengra frá úrslitunum en kannanir þeirra í upphafi nóvember mánaðar. Má það að mestu leyti rekja til þess að fylgi við Viðreisn var mælt mun hærra en það varð í kosningunum og fylgi við Sjálfstæðisflokkinn mun lægra en það varð. Sem dæmi má nefna þá var fylgi við Sjálfstæðisflokkinn 12% og fylgi við Viðreisn 21,5% í könnun Prósents sem birt var 15. nóvember, en í kosningaspá Metils frá 16. nóvember var Sjálftæðisflokknum spáð 17% fylgi og Viðreisn 16% fylgi.
Heilt yfir teljum við að vel hafi tekist til með kosningaspá Metils, en niðurstöður kosninganna munu nýtast vel við áframhaldandi þróun kosningalíkansins. Við þökkum fyrir góðar viðtökur og mikinn áhuga og vonum að lesendur hafi haft gagn og gaman af því að fylgjast með kosningaspánni.
Brynjólfur, Agnar, Hafsteinn og Rafael
Fylgisspá
Nýjustu kannanir í spánni eru kannanir Gallup, Félagsvísindastofnunar og Maskínu sem voru birtar 29. nóvember
Nýjustu kannanir í spánni eru kannanir Maskínu og Prósent sem birtust 28. nóvember
Uppfærsla 29. nóvember:
Lokaspá Metils er nú tilbúin. Nýjustu fylgiskannanirnar sem hafa áhrif á spána eru kannanir Gallup, Félagsvísindastofnunar og Maskínu, sem birtust fyrr í dag.
Í lokaspánni hefur Sjálfstæðisflokkurinn hæstu miðgildisspánna með 19,3%, sem er tæpu prósentustigi hærra en Samfylkingin. Það er þó ekki útséð hvor flokkanna fái hæsta fylgið, en í einni af hverjum þremur sviðsmyndum endar Samfylkingin með hærra fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn. Miðgildisspá fyrir fjölda þingmanna er 14 fyrir Sjálfstæðisflokkinn en 13 fyrir Samfylkinguna.
Sem fyrr er mikil óvissa um hversu margir flokkar nái yfir 5% þröskuldinn. Tveir flokkar, Píratar og Sósíalistar, mælast naumlega undir 5% í miðgildisspánni, en efri mörk óvissubils beggja flokkanna teygja sig yfir þröskuldinn. Píratar hafa þó kjördæmakjörinn þingmann í miðgildisspánni.
Jafnframt er óljóst hvaða flokkar munu geta myndað ríkisstjórn að loknum kosningum, en fjöldi flokka á þingi getur haft mikil áhrif á ríkisstjórnarmyndun. Í samanlögðu þingsætaspánni sýnum við hversu líklegt er að nokkrir flokkar nái sameiginlega meirihluta sæta á þingi. Fimm þriggja flokka samsetningar eru með 32 eða fleiri þingsæti í miðgildisspá: CDM, CDS, CFS, CMS og DFS.
Ljóst er að alþingiskosningarnar 2024 verða afar spennandi og fá atkvæði þurfa að færast á milli flokka til að hafa áhrif á þingstyrk flokka og myndun næstu ríkisstjórnar. Við þökkum fyrir góðar viðtökur á kosningaspá Metils og vonum að lesendur hafi haft af henni gagn og gaman.
Þingsætaspá
Miðgildin að ofan summast ekki endilega upp í 63 og því er ekki ráðlagt að nota þessa mynd til að athuga mögulega meirihluta.
Miðgildin að ofan summast ekki endilega upp í 63 og því er ekki ráðlagt að nota þessa mynd til að athuga mögulega meirihluta.
Samanlögð þingsætaspá
Um líkanið
Hér kynnum við til sögunnar spennandi nýjung á Íslandi - kosningalíkan sem spáir fyrir um úrslit komandi alþingiskosninga á grundvelli tölfræðilegra aðferða og rannsókna í stjórnmálafræði. Líkanið byggir á gögnum úr fylgiskönnunum, en einnig kosningaúrslitum fyrri ára og sögulegum gögnum um áhrif efnahagsmála og árangur ríkisstjórnarflokka í kosningum, auk fleiri þátta.
Líkanið spáir bæði fyrir um fylgi flokkanna á landsvísu og fjölda þingsæta sem hver flokkur fær. Þingsætaspáin byggir á mati okkar á fylgi flokkanna í einstökum kjördæmum og tekur tillit til þess hvernig kjördæmaskipting og úthlutun jöfnunarsæta hefur áhrif á endanlegan þingmannafjölda.
Hér að ofan má sjá nýjasta matið okkar á mögulegum úrslitum kosninganna. Til að forðast ímynd um meiri vissu en er til staðar námundum við fylgið í næstu heiltölu. Vegna þess geta tölur í töflunni hækkað eða lækkað þótt matið á fylgi hafi breyst lítið. Sömuleiðis getur summa alls fylgis verið önnur en 100% vegna námundunar, og summa miðgilda þingsætadreifingar verið önnur en 63.
Spálíkanið gefur okkur ekki aðeins eina tölu heldur líkindadreifingu yfir mögulegar útkomur kosninganna. Taflan við hlið myndarinnar sýnir „miðgildi“ og „90% óvissubil“. Miðgildi er skilgreint þannig að jafnlíklegt er að útkoma fyrir ofan og neðan það verði raunin, og því getum við sagt að miðgildið skipti líkindadreifingunni í tvennt.
Sömuleiðis þýðir 90% óvissubil að af 100 sviðsmyndum sem við reiknum út frá líkindadreifingunni, lenda 90 innan þess bils. Hins vegar lenda líka fimm fyrir neðan það bil og fimm fyrir ofan. Öll gildi á þessu bili má segja að séu raunhæf þegar kemur að líklegum niðurstöðum kosninganna eins og staðan er í dag.
Kosningalíkanið er unnið af Brynjólfi Gauta Guðrúnar Jónssyni\(^1\), ásamt Agnari Frey Helgasyni\(^2\), Hafsteini Einarssyni\(^2\) og Rafael Daniel Vias\(^1\).
\(^1\) Raunvísindadeild Háskóla Íslands \(^2\) Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands
Velkomin á kosningaspá Metils!
Hér má finna ýmis gögn sem varpa ljósi á stöðu flokkanna fyrir komandi alþingiskosningar. Fylgiskannanir eru bestu gögnin sem við höfum til að átta okkur á því hvaða flokk kjósendur ætla að velja í kosningunum. En þær eru auðvitað ekki fullkomnar spár um niðurstöður kosninganna. Til dæmis getur samsetning þátttakenda í könnununum verið önnur en samsetning kjósenda á kjördag, ákveðnir flokkar geta verið ofmetnir eða vanmetnir, við vitum ekki hver kjörsókn verður meðal ólíkra hópa og svo er auðvitað aðalatriðið – kosningarnar hafa ekki átt sér stað og fjöldi fólks á eftir að gera upp hug sinn. Einnig geta kjósendur skipt um skoðun varðandi hvaða flokk þeir ætla að kjósa eftir að þeir svara könnunum.
Í ljósi alls þessa kynnum við til sögunnar spennandi nýjung á Íslandi - líkan sem spáir fyrir um kosningaúrslitin sem byggir á kannanagögnum en leiðréttir fyrir þekktum ástæðum munar milli fylgiskannanna og kosningaúrslita. Líkanið skoðar breytingar á fylgi yfir tíma og þá óvissu sem því fylgir. Það leiðréttir fyrir þekktum frávikum við mat á fylgi ákveðinna flokka í fyrri kosningum. Þá byggir það á fjölda annarra forsenda:
- Fyrri kosningaúrslit: Fylgissveiflur geta verið miklar á miðju kjörtímabili, en kjósendur skila sér oft heim á lokaspretti kosningabaráttunnar
- Fjöldi ára við völd: Á Íslandi tapa sitjandi stjórnarflokkar alla jafna fylgi
- Efnahagsmál: Sitjandi stjórnvöld fá yfirleitt aukið fylgi með meiri hagvexti, en tapa ef verðbólga er há
- Stjórnarslit: Við stjórnarslit eykst óvissa um fylgi flokkanna, þar sem kjósendur fara skyndilega að fylgjast meira með stjórnmálum í aðdraganda kosninga
Til að meta áhrif þessara þátta notum við fylgiskannanir fyrir alþingiskosningarnar 2016, 2017 og 2021, og úrslit þeirra, ásamt því að nota söguleg gögn um gengi ríkisstjórnarflokka og áhrif efnahagsstærða á það frá 1971 til 2021.
Við vonum að líkanið komi að notum við að greina stöðu mála í íslenskum stjórnmálum í aðdraganda alþingiskosninganna. Eins og sjá má á vikmörkum fylgisspáa er mikilvægasta niðurstaða líkansins við birtingu sú að óvissan er gríðarlega mikil – það á ekki að koma okkur á óvart þó fylgi flokkanna breytist um nokkur prósentustig á lokametrunum.
Allar spár
Nýjustu kannanir í spánni eru kannanir Gallup, Félagsvísindastofnunar og Maskínu sem voru birtar 29. nóvember
Nýjustu kannanir í spánni eru kannanir Maskínu og Prósent sem birtust 28. nóvember
Nýjasta könnun í spánni er könnun Prósent sem var birt 22. nóvember
Nýjustu kannanir í spánni eru kannanir Prósent og Gallup sem birtust 15. nóvember
Nýjasta könnun í spánni er könnun Prósent sem var birt 8. nóvember
Nýjasta könnun í spánni er könnun Maskínu sem var birt 7. nóvember
Nýjustu kannanir í spánni eru kannanir Gallup, Félagsvísindastofnunar og Maskínu sem voru birtar 29. nóvember
Nýjustu kannanir í spánni eru kannanir Maskínu og Prósent sem birtust 28. nóvember
Nýjasta könnun í spánni er könnun Prósent sem var birt 22. nóvember
Nýjustu kannanir í spánni eru kannanir Gallup, Félagsvísindastofnunar og Maskínu sem voru birtar 29. nóvember
Nýjustu kannanir í spánni eru kannanir Maskínu og Prósent sem birtust 28. nóvember
Nýjasta könnun í spánni er könnun Prósent sem var birt 22. nóvember
Mat á fylgi flokka frá byrjun ágúst 2024
Hér má sjá mat okkar á þróun raunfylgis flokkanna mánuðina fyrir kosningar. Punktarnir á grafinu sýna fylgi flokka í einstökum könnunum, en línurnar mat okkar á þróun raunfylgis flokkanna á tímabilinu. Þegar punktar eru fyrir ofan línu er það vegna þess að líkanið okkar metur sem svo að fylgi flokks sé ofmetið í könnunum, en ef punktarnir eru fyrir neðan línu að fylgið sé vanmetið. Gögn úr könnunum eru skráð á miðju gagnaöflunartímabili könnunaraðila, en ekki daginn sem þau eru birt opinberlega.
Þegar spáin gefur í skyn að fylgi flokks muni annað hvort aukast eða minnka frá síðustu könnun er það vegna sögulegra gagna eins og sögulegs fylgis flokka í fyrri kosningum, ríkisstjórnarsetu flokka og áhrifa verðbólgu og hagvaxtar á ríkisstjórnarflokka. Þegar nær dregur kosningum munu söguleg gögn vega sífellt minna inn í spána.
Veldu listabókstaf til að skoða fylgisþróun þess flokks sérstaklega
Mat á fylgi flokka frá kosningunum 2021
Hér má sjá sömu mynd og að ofan, nema fyrir allt kjörtímabilið.
Veldu listabókstaf til að skoða fylgisþróun þess flokks sérstaklega
Kannanir
Kosningalíkanið
Mynd vikunnar
Föstudaginn 15. nóvember uppfærði Hagstofa Íslands gögn um starfandi samkvæmt skrám eftir rekstrarformum eftir að upp komst að einstaklingar í fæðingarorlofi voru ranglega skráðir sem opinbert starfsfólk. Þetta hafði þó lítil sem engin áhrif á myndina að neðan, enda lækkuðu tölurnar um fjölda opinbers starfsfólks frekar jafnt yfir öll árin.