Landspítalinn

Hvaða upplýsingar eru til um rekstur Landspítalans og hvar má finna þær?

Hvernig er nýting legurýma á Landspítala? Hvaða hlutfall launa fer í þessi margræddu millistjórnendastörf? Hér ætla ég aðeins að skoða hvaða gögn eru til um rekstur landspítalans, hvar má finna þau og hvað mætti betur fara í birtingu þeirra gagna.

landspítali
R
íslenska
Höfundur
Stofnun
Síðast uppfært

August 24, 2022

Gögn

Gögnin eru fengin úr starfsemisupplýsingum Landspítala. Þar sem þetta er allt í PDF skjölum er ég ekki búinn að sækja öll gögnin, en ég birti hérna yfirlit yfir það helsta sem ég hef náð að safna saman. Það er kannski óþarfi að segja það, en það væri mikill kostur ef Landspítali myndi birta töflurnar úr þessum PDF skýrslum t.d. á csv formi, eða sem excel skrár. Seðlabankinn birtir t.d. excel skrár með viðeigandi gögnum samhliða PDF skýrslum sínum.

Eitt það besta sem yfirvöld geta gert til að auka traust á rekstri spítalans eða ákvarðanir í kringum hann er að auðvelda almenningi að nálgast upplýsingar um reksturinn. Það er ekki nóg að lesa/heyra í fjölmiðlum að einhver klár manneskja segir eitthvað um reksturinn, það verður að vera hægt að sannreyna þetta.

Veikindahlutfall

Í starfsemisupplýsingum er bent á mikla fjarveru vegna COVID-19 veikinda Jan-Mars 2022. Við getum því skoðað muninn á veikindahlutföllum 2021 og 2022 eftir starfskjarna spítalans líka til að athuga hvort þetta sé bundið við ákveðnar starfsemistegundir.

Munur á Jan-Mars veikindahlutföllum 2021 og 2022

Hjúkrunarþyngd

Í grófum drætti er hjúkrunarþyngd skráð fyrir hvern sjúkling og hvern dag. Lægsta þyngdin er 1 og hæsta er 5. Landspítalinn birtir svo dreifingu hjúkrunarþungans eða heildarfjölda legudaga í hverjum þyngdarflokki. Nánar um hjúkrunarþyngd í þessari grein Halldóru Hálfdánardóttur, Elísabetar Guðmundsdóttur og Helgu Bragadóttur.

Atvik

Höfum í huga að atvikaskráning er ófullkomin mæling á raunverulegum fjölda atvika, bæði sjúklinga og starfsfólks. Því gæti aukning verið að hluta útskýrð af aukinni atvikaskráningu jafnt sem fjölgun atvika. Á hinn bóginn gæti flókið kerfi atvikaskráninga líka haft letjandi áhrif svo að atvikum hafi fjölgað meira en virðist vera.

Starfsmannavelta

Nýting legurýma

Ég vildi skrifa um nýtingu legurýma á Landspítala, en þau gögn eru ekki til eða allavega ekki aðgengileg. Ég bendi í stað þess á Bréf til blaðsins. Skortur á legurými fyrir bráðveika á Landspítala og greinina Bráð vandamál Landspítala eftir Martin Inga Sigurðsson, Elías Sæbjörn Eyþórsson, Theódór Skúla Sigurðsson og Runólfur Pálsson, sem birtust í Læknablaðinu í fyrra.

Í fyrrnefndum skrifum birtist eftirfarandi mynd

Tafla frá: Bréf til blaðsins. Skortur á legurými fyrir bráðveika á Landspítala (Læknablaðið 12. tölublað, 107. árgangur 2021)

Stöðugildi

Hér tek ég saman gögn úr starfsemisupplýsingum um fjölda stöðugilda á Landspítala eftir stéttarfélögum, og gögn úr ýmsum fréttatilkynningum um hlutföll stjórnenda og stoðþjónustu.

Læknar, Hjúkrunarfræðingar og Sjúkraliðar

Í fréttum hefur verið talað um að of mikið starfsfólk sé ekki beintengt umönnun sjúklinga. Ein tilraun til að sannreyna þetta er að reikna hlutfall stöðugilda sem eru ekki hjúkrunarfræðingar, læknar eða sjúkraliðar. Þess ber þó að geta að meðlimir þessara stéttarfélaga geta líka sinnt stjórnenda/skrifstofustörfum að hluta til eða öllu leyti. Aðrar fagstéttir tengjast líka sjúklingum beint (t.d. sálfræðingar, lyfjafræðingar, meinafræðingar og sjúkraþjálfararar), en til einföldunar skoðum við hérna þessar þrjár stóru stéttir.

Stéttarfélög

Hér má sjá fjölda og hlutföll stöðugilda fyrir fleiri stéttarfélög. Þar sem Sameyki varð ekki til fyrr en 2019 lagði ég saman fjölda stöðugilda hjá viðeigandi stéttarfélögum fyrir þann tíma.

Stoðþjónusta (Yfirstjórn/stjórnsýsla)

Texti og gögn frá Spurt og svarað um Landspítala þar sem er m.a. vitnað í skýrslu McKinsey frá 2020.

Stjórnendur við Landspítala eru ríflega 200 talsins en starfsmenn um 6000 í rúmlega 4500 stöðugildum, að meðaltali einn stjórnandi á hverja 26 starfsmenn. Samkvæmt hinu erlenda ráðgjafarfyrirtæki McKinsey er „yfirstjórn/stjórnsýsla“ hlutfallslega minnst á Landspítala (13,2%) borið saman við Sjúkrahúsið á Akureyri (15,5%) og erlend samanburðarsjúkrahús (allt að 21,2%).

Í stoðþjónustu á Landspítala voru 602 stöðugildi árið 2020 sem gerir 13,5% af heildarfjölda stöðugilda það árið (4462 stg). Þetta er sambærilegt hlutfall og á Sjúkrahúsinu á Akureyri og einnig því samanburðarsjúkrahúsi sem valið var til samanburðar í skýrslu McKinsey frá árinu 2020.

Þrátt fyrir að koma ekki beint að þjónustu við sjúklinga gegnir þetta starfsfólk engu að síður mikilvægu hlutverki. Þannig verður spítali ekki rekinn án fólks sem býr til mat handa sjúklingum, útvegar fatnað handa hjúkrunarfræðingum, reiknar laun handa sjúkraliðum, tæknifólks sem viðheldur öndunarvélum, forriturum sem passa upp á sjúkraskrár og svo framvegis. Þess má geta að á árunum eftir hrun var sérstaklega skorið niður í hópi þessara starfsmanna.

Þannig var hlutfall starfsmanna í stoðþjónustu af heildarfjölda stöðugilda 16,3% árið 2008 en er sem fyrr segir 13,5% árið 2021. Það er sérstakt markmið stjórnenda Landspítala að fjölga starfsfólki í stoðþjónustu svo faglært starfsfólk geti einbeitt sér að beinni þjónustu við sjúklinga og starfað í samræmi við menntun sína (e. Working from the top of your licence).

Stjórnendur

Fyrir tæpu ári síðan birti Landspítali Samantekt um stjórnendur á Landspítala og laun þeirra. Þar getum við séð hlutfall stjórnenda af öllum stöðugildum og notað svo gögnin um heildarfjölda stöðugilda til að reikna fjölda stöðugilda stjórnenda. Eins og sést að neðan hefur hlutfallið farið stöðugt lækkandi frá 2008 til 2020, og fjöldi stöðugilda stjórnenda lækkað eða haldist í stað.

Skrifstofa

Fyrir nokkrum árum endurskilgreindi Landspítali starfsemissviðin sín og tók að nota færri yfirsvið í starfsemisupplýsingum sínum. Í starfemisupplýsingum má sjá að stöðugildum hefur fjölgað á Skrifstofusviði, en þessi fjölgun þýðir ekki að skrifstofufólki hefur fjölgað heldur hefur verið að færa starfsemi á milli sviða. Ég bendi áhugasömum á Spurt og svarað um Landspítala.

Tilkynning vegna skrifstofustöðugilda

Launaútgjöld

Á rikisreikningur.is eru gögn um bókhald ríkisstjórnarinnar. Með þeim gögnum getum við skoðað launaútgjöldin til Landspítala og skipt þeim upp eftir dagvinnulaunum, yfirvinnulaunum o.s.f.

Eitt sem mér finnst vanta í þessu gögn er að sjá launaútgjöldin eftir starfsstétt eða einhverskonar flokkun eftir starfsheitum.

Á tímabilinu fóru 16.3% launaútgjalda í yfirvinnu, 9.7% í vaktaálagsgreiðslur, 18.3% í launatengd gjöld og 55.7% í dagvinnulaun.

Eftir leiðréttingu fyrir verðbólgu sjáum við að árið 2006 voru mánaðarleg launaútgjöld spítalans á hvert stöðugildi að meðaltali 923.634 kr. Með því að draga svo frá launatengd gjöld, 159.441 kr, sjáum við að meðallaun starfsfólks fyrir skatt voru 764.193 kr.

Fyrir árið 2021 fáum við mánaðarleg launaútgjöld upp á 1.152.415 kr per stöðugildi. Drögum frá launatengd gjöld, 209.507 kr, og fáum meðallaun fyrir skatt upp á 942.908 kr.

Höfum í huga að yfirvinna og vaktaálagsgreiðslur eru innifaldar í þessum tölum. Meðallaun dagvinnu fóru úr 507.851 kr í 655.700 kr fyrir skatt á sama tímabili og meðallaun án yfirvinnu fóru úr 606.414 kr í 765.350 kr fyrir skatt.

Gögnin að neðan eru sýnd á föstu verðlagi 2022.

Á höfðatölu

Við getum svo notað tölur Hagstofu um mannfjölda eftir aldri til að reikna launaútgjöld á höfðatölu, bæði fyrir alla íbúa og fyrir íbúa sem hafa náð 65 ára aldri.

Upphæðirnar að neðan eru leiðréttar fyrir verðbólgu með vísitölu neysluverðs.

Ef við skoðum launaútgjöld á hvern íbúa sýnist okkur að launaútgjöldin hafa aldrei verið hærri.

En þegar við skoðum launaútgjöld á hvern íbúa sem hefur náð 65 ára aldri eru við rétt að komast upp í sömu fjárhæð og árið 2007.

Niðurlag

Það vantar meiri og betri gögn frá Landspítala. Þau gögn sem birtast gera það í miðjum PDF skýrslum sem gerir fólki óþarflega erfitt fyrir að skoða þau, eða í fréttatilkynningum sem fólk einhverra hluta vegna tekur ekki eftir eða gleymir. Hvernig er nýting legurýma?

Gögn um laun og fjármál má finna á rikisreikningur.is, en þau eru ekki nógu nákvæm. Við getum ekki séð hvert launaútgjöldin fara á Landspítala, bara skiptingu þeirra í dagvinnu o.s.f. Til samanburðar gat ég auðveldlega fundið hlutfall launaútgjalda Reykjavíkurborgar sem fara í eitthvað sem gæti kallast “skrifstofustörf”.

Eins og Onora O’Neill sagði: Við getum ekki óskað eftir því að okkur sé treyst, við getum bara sýnt að við séum traustsins virði og leyft traustinu að vaxa af sjálfsdáðum. Til þess þarf opin og aðgengileg gögn, og gegnsæa aðferðafræði sem er auðvelt að endurtaka. Mikilvægast er að gera það auðvelt fyrir aðra að taka eftir og tilkynna þegar við höfum rangt fyrir okkur.